Þjálfarinn

Hæ, ég heiti Ingvar og ég hef verið í hjólreiðum í ansi mörg ár.

Ég byrjaði að hafa áhuga á hjólreiðum þegar ég keypti mér BMX hjól í 9.bekk, og lék mér á því ásamt vinum mínum, í þá daga þegar allt snerist um að hoppa sem hæst, stökkva fram af húsþökum og búa til stökkpalla. Stuttu seinna átti ég nokkur góð ár í fjallabruni, en fljótlega fór áhuginn að snúast að því að hjóla hratt, ekki bara niður brekkur, heldur upp þær líka. Fjallahjólreiðar hafa alltaf verið “mín grein”, en ásamt því keppi ég og æfi mikið á götuhjóli, og í cyclocross, ásamt tímaþraut stöku sinnum. Síðan 2014 hef ég verið fremstur Íslendinga í keppnishjólreiðum, og þökk sé öflugum styrktaraðilum get ég kallað mig atvinnumann í íþróttinni.

Ferillinn minn nær yfir fjölmargar keppnir á Íslandi, fjölmarga Íslandsmeistaratitla í ýmsum greinum hjólreiða, ásamt því að hafa verið Hjólreiðamaður ársins nokkrum sinnum. Ásamt því hef ég tekið þátt í heimsmeistaramótum, Evrópumeistaramótum, heimsbikarmótum, og tugum annarra móta á vegum UCI, alþjóðasambands keppnishjólreiða.

Á þeim árum sem ég hef einbeitt mér af keppnishjólreiðum, hef ég verið mikill áhugamaður um vísindin, og aðferðir á bak við þjálfun og æfingar. Ég myndi kalla sjálfann mig algjörann “nörd” þegar kemur að því að nota aflmæla og púlsmæla á æfingum. Ég hef safnað kunnáttu, þekkingu og reynslu í gegn um tíðina, í ýmsum aðstæðum, þar af ýmsu sem enginn annar Íslenskur hjólreiðamaður hefur reynslu af.

Undanfarin ár hef ég komið að því að aðstoða, og þjálfa, nokkra einstaklinga sem hafa notið góðs af minni reynslu og kunnáttu. Ég hef haldið tækninámskeið í fjallahjólreiðum, og held því áfram, fyrir alla sem hafa áhuga á að bæta sig í öryggi á hjólinu, og hraða. Þetta er mér stórt áhugamál, og eitthvað sem ég geri af hreinni ástríðu, og brennandi áhuga á hjólreiðaíþróttinni.