Blogg

Þegar innipúkar komast út að leika

Þegar innipúkar komast út að leika

30.03 2020 21:21

Það styttist í vorið og þá verða miklar breytingar á venjum og rútínu þeirra sem æfa hjólreiðar. Það fer að dragast úr inniæfingum, trainerinn verður bráður settur í geymslu og í stað nagladekkja koma götuhjóladekkin fram, tilbúin í slaginn.

Eitt sem inniæfingar hafa fram yfir útiæfingar er áreiðanleiki og stöðugleiki. Það er alltaf hægt að reiða sig á að aðstæður gangi upp, því það er jú aldrei vont veður inni í æfingastöðinni eða heima í stofu. Hjólið er alltaf hreint og klárt, keðjan smurð og nóg loft í dekkjunum. Jú tölvur og tækni eiga sína ókosti, í staðinn fyrir að laga sprungið dekk stendur maður stundum uppi með sambandsleysi á Zwift eða maður gleymdi púlsmælinum sem tengir saman hjólið og Garmin tækið. En stöðugleikinn í æfingum er mikill kostur, sem gerir manni kleift að ráða við æfingar af öllum stærðum og gerðum, spretti og keyrslur í hvaða tímalengd og ákefð sem er. Hvar á höfuðborgarsvæðinu er best að taka 2x20 mín keyrslur á 100% af FTP? Ég get nefnt 3 staði, en allir eru á leið út úr borginni, og eru sjaldgæfar leiðir án rauðra ljósa, stöðvunarskyldna og fótgangandi umferðar.

Áskorunin sem ég stend frammi fyrir sem þjálfari er að hjálpa mínu fólki að komast yfir þessar hindranir og ná að aðlagast útihjólreiðum með sem minnstum truflunum á jafnvægi í æfingaálagi. Það getur tekið örfáa daga eða vikur fyrir fólk að venjast því að taka sínar 2 mínútna löngu keyrslur upp og niður Áslandsbrekkuna (sem er hjóluð í startinu á Bláalónsþrautinni) í staðinn fyrir nákvæmlega hvaða vegkafla sem er á Zwift. En þetta lærist allt, og oftast er þetta bara aðlögun, flestir hafa prufað að taka erfiðar interval æfingar inni og úti og þekkja muninn. Maður venst þægilegum aðstæðum og það getur tekið smá tíma að komast í nýja rútínu og breytt hugarfar.

Hvað er svona betra við að gera þetta úti annars? Fólk æfir af mismunandi ástæðum en flestir sem ég þjálfa eru að því til að standa sig vel í keppni. Þar kemur sterkt inn að geta framkvæmt erfið verkefni í breytilegum aðstæðum. Að taka standandi sprett í neikvæðum halla, eða halda meðalvöttum í 20 mínútur á 100% af FTP í fjallahjólabraut sem er full af beygjum og hækkunum eða lækkunum, allt eru þetta hlutir sem þarf að ná tökum á. Ég lít á það sem stórann kost að geta horft á nánast hvaða leiðarkafla eða landslag sem er, og hugsað mér að ég geti hjólað það á hvaða afli sem mér dettur í hug. Í keppnisaðstæðum lenda allir á einhverjum tímapunkti í því að þurfa að hjóla á hraða sem einhver annar, einstaklingur eða hópur, ákveður. Maður hefur enga stjórn á ytri aðstæðum, fær ekki að velja þægilegann stað í braut til að hækka hraðann og keyra upp vöttin, heldur verður maður að fylgja öðrum og passa að detta ekki afturúr. Eins auðvelt og það er að forðast að taka sínar interval æfingar í erfiðum og óþægilegum aðstæðum, þá er það ómetanlegt þegar á hólminn er komið, og maður þarf að standa sig.

Ég legg alltaf mikla áherslu á það að fólkið sem ég þjálfa geti ráðið við erfiðar æfingar í erfiðum aðstæðum. Maður verður bara betri ef maður getur tekist á við erfiða brekkuspretti í brekku sem er ekki í jöfnum halla alla leið. Maður lærir ómetanlegann hæfileika sem er að stýra álagi (pacing), jafnvel þegar maður er að hjóla langt yfir FTP vöttum og er alveg að drepast. Á meðan að hjóla inni á trainer hjálpar manni að æfa eins og vélmenni þá finnst mér margfalt mikilvægara að geta æft eins og sama vélmenni, nema í breytilegum og óvæntum aðstæðum.

Framundan er vorið, og margir vilja losna undan ströngum æfingaplönum til að fara út að leika með vinum, enda veturinn helsta tímabilið til að æfa. En það þarf ekki endilega að vera svo svart og hvítt, með þægilegu sambandi við þjálfara og einföldu skipulagi er hægt að fá besta af báðum heimum, að blanda saman skipulegum æfingum og skemmtilegum hóprúntum í hverri viku. Það bætist svo við flækjustigið þegar loksins hefst keppnistímabilið, og það verður heljarinnar verkefni að finna jafnvægið milli hvíldar, æfinga, skemmtihjólreiða og keppna.

Þegar ég var með þjálfara þá var þetta lykilatriði fyrir mér, að hafa utanaðkomandi aðila sem gat hjálpað mér að setja saman keppnisdagatalið mitt, og hjálpað mér að sjá fyrir mér hvenær ég ætti að vera að æfa á fullu, og hvenær ég ætti að slaka á fyrir næstu keppni eða keppnir. Það fylgir því alltaf ákveðin ábyrgðartilfinning þegar maður hefur annan aðila sem fylgist með árangri og fylgni í æfingaplani, og maður finnur fyrir þessarri þörf til að uppfylla vonir og væntingar beggja aðila. Sem þjálfari og íþróttamaður hef ég reynslu beggja megin við borðið og veit hvað skiptir máli fyrir báða aðila, og það er sú reynsla sem ég nýti mér til að hjálpa mínu fólki við að ná sínum markmiðum.


Ingvar Ómarsson

Sjá fleiri bloggfærslur

Hvað er málið með time trial?

1 June kl: 14:42

Margir hafa velt fyrir sér hvað keppni í tímaþraut er, hvernig hún virkar og um hvað málið snýst.

Lesa

Þegar innipúkar komast út að leika

30 March kl: 21:21

Það styttist í vorið og þá verða miklar breytingar á venjum og rútínu þeirra sem æfa h

Lesa

Hin fullkomna hjólaferð?

21 December kl: 00:54

Hvað þarf að gera til að eiga góða og árangursríka æfingaferð til útlanda?

Lesa

TrainingPeaks - hvað er það, og afhverju ætti ég að nota það?

9 December kl: 13:25

Trainingpeaks er eitt mikilvægasta verkfærið í dag fyrir alla sem æfa markvisst. En hvernig virkar það?

Lesa

Hvað er svona erfitt við að hjóla inni?

13 November kl: 01:03

Innihjólreiðar geta verið bölvun og blessing. Stundum er eini kosturinn að hjóla inni, og þá er gott að vita

Lesa