Blogg

Hvað er svona erfitt við að hjóla inni?

Hvað er svona erfitt við að hjóla inni?

13.11 2018 01:03

Innihjólreiðar geta verið bölvun og blessing. Stundum er eini kosturinn að hjóla inni, og þá er gott að vita hvernig er hægt að gera sem mest úr því.

Ég hef alltaf átt í svolítið erfiðu sambandi við innihjólreiðar. Að taka á því á hjólinu inni er bara ekki það sama og að gera það úti, en upplifunin er mismunandi eftir fólki. Ég met þetta bara út frá sjálfum mér. Ég hjóla af því mér finnst gaman að fara hratt. Ég elska að taka fram úr, hjóla krappar beygjur, ráðast á brattar brekkur og fljúga niður hinum megin við hæðina. Ég elska að finna fyrir fjallahjólinu renna til í blautri drullu, spóla smá í mölinni og rífa upp grasið. Ekkert af þessu gerist á trainer, eða á innihjóli. En það er margt annað sem kemur í staðinn.

Ég hef þurft að læra að koma mér í annað hugarástand þegar ég stefni á það að æfa inni á hjólinu. Það þarf að hugsa út í tilganginn með þessu, hvað maður vill fá út úr æfingunni, og hvað maður er að gera yfir höfuð. Ég lifi fyrir það sem ég taldi upp hér að ofan, en það að vera í góðu formi er eitthvað sem hefur áhrif á mína upplifun af þessu öllu. Þegar ég er þreyttur, slappur, eða búinn að hvíla of lengi, er tilfinningin ekki sú sama og mér finnst eitthvað vanta. Allt gengur upp þegar ég er í mínu besta formi.

Þannig að þegar veturinn kemur, og ég sit og skipulegg markmiðin og draumana fyrir næsta ár, þarf ég að horfast í augu við aðstæður. Ég vil vera í góðu formi, og til að geta það þarf ég að leggja á mig talsverða vinnu á hjólinu. Þetta er fljótleyst þegar veður leyfir, og fjöldi klukkutíma á viku verður mikill, en svo kemur frostið, snjórinn, klakinn, og allt snýst á hvolf. Reglubundin þjálfun er lykillinn og það getur farið illa með gott plan að breyta sífellt til eftir veðri og vindum.

Vinnan hefst við að setja saman raunhæft æfingaplan sem byggist á því að hjóla inni, með möguleika á að fara út þegar veður leyfir. Það sem skiptir mig miklu máli þegar ég er að hjóla inni er að hafa eitthvað verkefni, eitthvað markmið. Að taka 2 tíma æfingu á grunnþoli, án neinna breytinga á álagi, fyndist mér nokkuð góð hugmynd að pyntingum, ef ég væri í þeim bransa. Það sem mig langar að gera er að ná að vinna vinnuna á hjólinu á stuttum tíma, með fjölbreytni sem gerir hvert skipti nógu skemmtilegt til að halda uppi spennu fyrir næsta skipti. Blanda þessu saman við nokkra kílómetra af hlaupum á viku, og set lyftingar í planið líka, og þá er þetta orðið nokkuð heilsteypt.

Ég er tiltölulega nýbyrjaður að æfa inni, en æfingatímabilið fyrir næsta ár hófst í síðustu viku. Síðustu ár hef ég gert þau síendurteknu mistök að vanhugsa aðstöðuna sem ég hef til að hjóla inni. Ég hef oft hugsað að ég hjóli nokkurn veginn alltaf úti, og þegar kemur að því að hjóla inni þá finn ég bara út úr því þegar að því kemur. Það endar alltaf með því að ég er ekki tilbúinn í æfinguna þegar að henni kemur, metnaðurinn hverfur og allur vilji til að byrja æfinguna yfir höfuð er farinn út um gluggan. Í þetta skiptið hugsaði ég aðeins betur út í þetta, og byrjaði á því að komast yfir magnaða græju hjá vinum mínum í Kríu. Wahoo Kickr er fyrsti “smart trainer” sem ég prufa, og eftir að hafa aðeins notað gamaldags trainer, sem hefur enga stjórn á mótsstöðu eða gefur raunverulega tilfinningu miðað við álag, er ég vægast sagt spenntur fyrir að hjóla inni. Og það er ekki líkt mér, það er bara þannig. 

Zwift er skemmtileg leið til að gera innihjólreiðar fjölbreytilegar. Fyrir þá sem ekki þekkja til, er Zwift tölvuleikur sem býr til sýndarheim, og þar koma hjólarar saman á sínum hjólum. Þeir sem spila eru með tölvuna fyrir framan hjólið heima í skúrnum eða í stofunni, allt tengt saman, og þannig gefur leikurinn manni rosalega raunverulega tilfinningu, með því að þyngja mótsstöðuna í trainer græjunni þegar leikmaðurinn í leiknum fer upp brekku, og léttir þegar hann rúllar niður brekku. Þetta er magnað, og eitthvað sem er erfitt að lýsa án þess að segja öðrum einfaldlega að prufa.

Ég sé fram á skemmtilegann vetur með fjölbreyttum æfingum, og vonandi sem flestum dögum úti á hjólinu. Í lok dags mun ég alltaf taka útihjól fram yfir innihjól, og ég held að það sé ansi algeng skoðun hjá þeim sem ég þekki í sportinu.

 

Ingvar Ómarsson

Sjá fleiri bloggfærslur

Hvað er málið með time trial?

1 June kl: 14:42

Margir hafa velt fyrir sér hvað keppni í tímaþraut er, hvernig hún virkar og um hvað málið snýst.

Lesa

Þegar innipúkar komast út að leika

30 March kl: 21:21

Það styttist í vorið og þá verða miklar breytingar á venjum og rútínu þeirra sem æfa h

Lesa

Hin fullkomna hjólaferð?

21 December kl: 00:54

Hvað þarf að gera til að eiga góða og árangursríka æfingaferð til útlanda?

Lesa

TrainingPeaks - hvað er það, og afhverju ætti ég að nota það?

9 December kl: 13:25

Trainingpeaks er eitt mikilvægasta verkfærið í dag fyrir alla sem æfa markvisst. En hvernig virkar það?

Lesa

Hvað er svona erfitt við að hjóla inni?

13 November kl: 01:03

Innihjólreiðar geta verið bölvun og blessing. Stundum er eini kosturinn að hjóla inni, og þá er gott að vita

Lesa