Blogg

Hvað er málið með time trial?

Hvað er málið með time trial?

1.06 2020 14:42

Margir hafa velt fyrir sér hvað keppni í tímaþraut er, hvernig hún virkar og um hvað málið snýst. Hvernig virkar fyrir einhvern sem keppir í öðrum greinum hjólreiða að prófa sig áfram í tímaþraut?

 

Um hvað snýst time trial?

Time trial, eða tímaþraut ef við forðumst að fá ábendingar frá Málvöndunarþættinum, er ein heiðarlegasta keppnisgrein innan hjólreiða. Keppnin er þú, á hjóli, að hjóla ákveðna braut, eins hratt og þú getur, punktur. Keppendur eru ræstir með jöfnu millibili, einn í einu. Samanborið við götuhjólreiðar er búið að þurrka út marga þætti sem koma við sögu og utanaðkomandi áreiti eins og hópamyndanir, að hjóla innan um aðra keppendur, og flestar hugmyndir um taktík eða keppnisplön eiga ekki við. Ekkert er heiðarlegra en að hjóla einn eins hratt og mögulegt er, og fá sanngjarnan samanburð við næsta keppanda, sem fór sömu leið, í sömu aðstæðum, án hjálpar frá öðrum keppendum. Margir elska þetta og margir hata, það eru oft sterkar skoðanir á þessarri keppnisgrein, og að mínu mati er það að hafa áhuga á tímaþraut merki um óbilandi ástríðu fyrir keppnishjólreiðum. Allt í þessu snýst um að fara eins fljótlega frá einum punkti til annars, á sem styðstum tíma og þá sem allra hraðast. Keppnir geta verið stuttar, alveg niður í 6-7 mínútur (oft kallað prologue og er formáli að fjöldægrakeppni) en þær geta líka farið vel yfir klukkutíma, eins og er algengt í heimsins stærstu mótum í greininni.

 

Ok, þarf ég þá TT hjól?

Já og nei. Tímaþraut er sérhæfð grein sem fókusar rosalega mikið á getu einstaklingsins til að fara sem hraðast. Önnur grein sem á yfirborðinu er gjörólík, en í raun byggir á nákvæmlega sömu hugmyndum, er fjallabrun. Báðar greinar eiga það sameiginlegt að keppendur notast við sérhæfð hjól sem eiga ekki mikið erindi utan sinna greina, sem gerir það óalgengt að fólk eigi slík hjól, jafnvel þó mikið sé keppt í öðrum greinum. Í stuttu máli er tímaþrautarhjól besta verkfærið í verkið, en götuhjól ganga alveg upp, þó þau séu takmörkuð í þessu samhengi. Tímaþrautarhjól eru sérgerð til að fara sem beinasta línu áfram, með stýri sem gerir keppanda kleift að leggjast meira fram og minnka yfirborðsflatarmálið, flatar stangir í stellinu sem fara hratt í gegn um loftið og djúpar, stundum gegnheilar, gjarðir sem fara enn lengra með vindmótstöðufræðin sem svona hjól snúast mikið um. Í flestum keppnum getur hver sem er verið með, hvort sem götuhjól eða tímaþrautarhjól er notað.

 

Hvernig er brautin?

Keppnisbrautir eru rosalega fjölbreytilegar og misjafnar. Sumar eru langar, aðrar stuttar, sumar flóknar með beygjum og brekkum, aðrar eins og hannaðar með reglustiku með engum beygjum nema mögulega snúningspunkti til að fara aftur til baka í mark, þar sem rásmark var. Flestar tímaþrautarbrautir eru þó nokkuð einfaldar enda ekki stór hluti af sportinu að flækja málin, tæknileg geta keppenda víkur fyrir afli og hreinum styrk, en þó eru dæmi um tæknilegar brautir á hærri stigum í sportinu sem kveikja stundum í keppnisandanum hjá hörðustu götuhjólakeppendum. Það er gott að kíkja á keppnisleiðina fyrir keppni, oft er hún það stutt að það er ekkert mál að fara hana nokkrum dögum fyrir keppni, kanna aðstæður og prófa búnaðinn sem á að nota á keppnisdegi. Þetta getur hjálpað manni að fá hugmynd að þeim tíma sem mun taka að klára keppnina.

 

Hvenær á ég að mæta? Þarf að hita upp?

Mér finnst best að stilla upp keppnisdegi þannig að ég get mætt á keppnisstað í seinasta lagi 90 mínútum fyrir start, en þó helst 2 tímum. Það kann að virðast langur tími en oft hleypur tíminn frá manni við undirbúning fyrir keppni og það er fátt betra fyrir líkama og sál en að vera yfirvegaður og rólegur fram að starti. Þessir 2 tímar sem ég hef frá því að ég mæti fara vanalega í að klæða mig í keppnisbúning, sækja keppnisgögn og festa á búning eða hjól, fara yfir hjól og annan búnað og passa að allt sé alveg á hreinu, tryggja að vatnsbrúsar og gel séu til staðar, og hefja upphitun. Það er góð regla að upphitun verði mikilvægari eftir því sem keppnir verða styttri, og helsta ástæðan fyrir því er að í stuttri keppni er minni tími fyrir mistök og lélega frammistöðu sem oft má bæta í miðri keppni þegar tími gefast. Í stuttri tímaþraut er byrjað á 100% afköstum, og maður vill enda á 100% afköstum. Það er erfitt að gera án þess að hita vel upp. Dæmi um upphitun fyrir 30 mínútna keppni er 45-60 mínútna hjól á svæðinu nálægt starti, með rólegri byrjun með stöðugt hækkandi álagi og nokkrum stuttum keyrslum til að fá blóð í lappirnar og kveikja aðeins á keppnisskapinu.

 

Hvað er svo best að gera í sjálfri keppninni?

Besta tímaþrautin er hjóluð á 100% afköstum allan tímann. Það er auðvelt að segja það, erfiðara að útskýra og erfiðast að framkvæma. Þegar ég tala um 100% afköst á ég við að öll möguleg orka, allur styrkur og geta, er tæmd og kláruð þegar maður kemur í mark. Ekkert skilið eftir og engar varabirgðir sem eru ekki notaðar í keppnina sjálfa. Það er ekki mikill tími til að gera þetta yfir 30-60 mínútna keppni, en um leið og keppnin hefst virðast þessar mínútur taka heila eilífð. Helstu mistök hjá fólki er að byrja af of miklum krafti, jafnvel spretta af stað, og vera of þreytt í seinni hálfleik, þegar meira en helmingur af orku er búinn, en helmingur af keppninni er ennþá eftir. Þetta þýðir að á einhverjum tímapunkti þarf að hægja á sér, og þá safnast upp óþarfa tími sem maður vill ekki eyða á keppnisbrautinni. Keppnin snýst um að eyða sem minnstum tíma í að hjóla brautina, en maður verður að vera meðvitaður um að halda jöfnu og þéttu álagi alla leið. Byrja rólega, hækka álagið upp að því marki sem maður finnur að maður getur viðhaldið í einhvern tíma, og þegar maður veit að stutt er eftir, hækka álagið enn meira ef mögulegt er, til að klára á sem minnstum tíma. 

 

Tímaþrautin snýst um að keppa við sjálfan sig, og það er fyrir mörgum það skemmtilegasta við greinina. Enginn getur falið sig í skjóli af næsta keppanda, eða spilað taktískt. Það þarf einfaldlega að hjóla sem hraðast, til að sigra. Fullkomið hlutfall af áskorun og einfaldleika :)


Ingvar Ómarsson

Sjá fleiri bloggfærslur

Hvað er málið með time trial?

1 June kl: 14:42

Margir hafa velt fyrir sér hvað keppni í tímaþraut er, hvernig hún virkar og um hvað málið snýst.

Lesa

Þegar innipúkar komast út að leika

30 March kl: 21:21

Það styttist í vorið og þá verða miklar breytingar á venjum og rútínu þeirra sem æfa h

Lesa

Hin fullkomna hjólaferð?

21 December kl: 00:54

Hvað þarf að gera til að eiga góða og árangursríka æfingaferð til útlanda?

Lesa

TrainingPeaks - hvað er það, og afhverju ætti ég að nota það?

9 December kl: 13:25

Trainingpeaks er eitt mikilvægasta verkfærið í dag fyrir alla sem æfa markvisst. En hvernig virkar það?

Lesa

Hvað er svona erfitt við að hjóla inni?

13 November kl: 01:03

Innihjólreiðar geta verið bölvun og blessing. Stundum er eini kosturinn að hjóla inni, og þá er gott að vita

Lesa